UPPLÝSINGAR

Upplýsingar

Grindavík

Grindavíkurbær kemur ferðafólki sífellt á óvart. Þetta 3100 manna samfélag er heillandi, spennandi og skemmtilegur áfangastaður fyrir fjölskylduna í sumarfríinu. Hér er fjölbreytt afþreying, heillandi náttúra og gönguleiðir í landmiklu bæjarfélagi og fjölmennasti ferðamannastaður landsins, Bláa lónið, er í túnfætinum.

Í Grindavík er glænýtt tjaldsvæði, fjölskylduvæn sundlaug, einn af bestu golfvöllum landsins sem nýbúið er að stækka í 18 holur, hið einstaka auðlinda- og menningarhús Kvikan, vandaðir matsölustaðir og ýmis skemmtileg afþreying.

Þeir sem vilja fá útrás geta farið í fjórhjólaævintýri, eldfjalla- og hellaferðir, útreiðatúra eða hjólaferðir. Náttúran í landi Grindavíkur er best geymda leyndarmál landsins en sett hafa verið upp fróðleg upplýsingaskilti fyrir ferðamenn.

Frá tjaldsvæðinu er stutt í ýmsar gönguleiðir um gamlar þjóðleiðir eins og Prestastíg, Skógfellsveg og Reykjaveg. Hópsneshringurinn er heillandi en þar eru m.a. skipsflök og gamlar minjar. Í landi Grindavíkur eru náttúruperlur á borð við Gunnuhver, Brimketil, Eldvörp, Kleifarvatn, Þorbjarnarfell og Krísuvíkurberg.

Þá er gaman að sjá Reykjanesvita, skoða fjölskrúðugt fuglalíf, mannlíf og atvinnulíf við höfnina en Grindavík er ein stærsta verstöð landsins. Í Stakkavík er hægt að skoða nútíma fiskvinnslu sem mörgum finnst áhugavert. Þá er um að gera og nota tækifærið og dorga á bryggjunni. Þorbjarnarfell og nágrenni heillar útivistarfólk en þar er frábært útsýni.

Í Grindavík er margt skemmtilegt um að vera fyrir ferðafólk á sumrin. Sjóarinn síkáti er ein stærsta fjölskylduhátíð landsins, Jónsmessugangan nýtur mikilla vinsælda og Geoparkvika á Reykjanesu afar skemmtileg. Sjá nánar á www.grindavik.is

Njótið lífsins og verið velkomin til Grindavíkur, fjölmennasta ferðamannastaðar á landinu! Þar finna allir eitthvað við sitt hæfi!

Vinir okkar

Share by: